Það hefur ekki farið fram hjá bæjarbúum að nú standa yfir miklar framkvæmdir við Sundlaug Akureyrar. En um hvað snýst framkvæmdin?
Um er að ræða bæði nýframkvæmdir og viðhald. Þegar framkvæmdum lýkur í sumar verður komin ný og stærri lendingarlaug, tvískiptur pottur verður kominn á svæðið sem er annars vegar nuddpottur og hins vegar vaðlaug.
Tvær stórar rennibrautir verða komnar upp, önnur verður um 86 m á lengd en hin verður öllu styttri og endar í svokallaðri trekt auk þess sem ný barnarennibraut kemur við hlið þeirra. Stigahús fyrir rennibrautirnar verður lokað og upphitað sem gefur okkur tækifæri á að hafa rennibrautirnar opnar allt árið um kring. Sundlaugarsvæðið verður mestallt komið í sömu hæð sem auðveldar aðgengi allra til muna.
Unnið hefur verið að viðhaldi á svæðinu en búið er að skipta út yfirborðsefni á bökkum auk þess sem skipt var um yfirborðsefni í barnavaðlaug og sett upp ný leiktæki. Sundlaugargarðurinn verður með breyttu formi en hann verður tvískiptur; annars vegar leiksvæði fyrir gesti og gangandi líkt og áður var og hins vegar sérstakt svæði fyrir sundlaugargesti þar sem m.a. sólbaðsaðstaða verður.
Eflaust munu sumir sakna litlu bílanna en vegna framkvæmdanna verða þeir fluttir að Hömrum þar sem skátarnir munu sjá um rekstur þeirra.
Framkvæmdin er mikið framfaraskref fyrir Akureyrarbæ, enda er Sundlaugin á Akureyri mest heimsótta mannvirki bæjarins með rúmlega 360 þúsund gesti á ári. Þegar framkvæmdum lýkur eigum við eitt glæsilegasta sundlaugarsvæði landsins þótt víðar væri leitað.
Áætlað er að framkvæmdum við rennibrautir og potta ljúki í lok júní 2017.