Umhverfið okkar – Akureyri

Akureyrarbær stendur framalega í umhverfismálum þannig að eftir er tekið og er stefnan að gera enn betur. Við viljum taka forystu meðal íslenskra sveitarfélaga og setja okkur mælanleg markmið. Eitt af markmiðum Umhverfis- og samgöngustefnunnar sem samþykkt var seinnihluta árs 2016 er að auka vitund íbúa um verðmæti hluta og verðmætin sem geta leynst í úrgangi. Þessu markmiði náum við með stöðugri fræðslu til íbúa um mikilvægi flokkunar sem og mikilvægi betri nýtingar.

Það skiptir máli að fylgjast með loftgæðum í umhverfinu og það gerum við m.a. með notkun á svifryksmæli en á síðasta ári var nýr mælir keyptur í samvinnu við Umhverfisstofnun og er hann staðsettur við Strandgötu. Upplýsingar um svifryk í andrúmslofti eru aðgengilegar á rauntíma hverju sinni á heimasíðu bæjarins. Akureyrarbær birti einnig á haustdögum auglýsingar þar sem bæjarbúar voru hvattir til að minnka notkun á nagladekkjum með það að markmiði að minnka svifryk.  

Byrjað er að vinna eftir svokölluðu Ljósvistarskipulagi Akureyrar og er hafin vinna við að skipta götuljósum yfir í LED lýsingu en með henni er dregið úr ljósmengun, myrkurgæði eru aukin og dregið úr orkunotkun. Umhverfis- og samgöngustefnan gerir líka ráð fyrir að auka skjólsæld og kolefnisjöfnun í bæjarlandinu og það er m.a. gert með gróðursetningu trjáplantna umhverfis bæinn og hefur verkefnið verið kallað„Græni trefillinn“.

Útplöntun norðan Glerár hefur verið stöðug og er nú nauðsynlegt að skipuleggja svæðið betur með tilliti til framtíðar útivistarsvæðis en gera má ráð fyrir aukinni nýtingu svæðisins sem útivistarsvæðis m.a. með tilkomu göngustíga tengdum nýrri Glerárdalsvirkjun. 

Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að geta notið náttúrunnar á útivistarsvæðum þar sem allur aldur finnur sér eitthvað við að vera. Framkvæmdir sem miða að þessu hafa verið gríðarlega miklar hjá Akureyrarbæ síðustu ár og ber þar helst að nefna mikla uppbyggingu og viðhald í Kjarnaskógi þar sem gerðir hafa verið tveir strandblakvellir, salernishús, grillhús, bifreiðastæði og fjölbreytt leiktæki hafa verið sett upp á svæðinu fyrir alla aldurshópa. Þá hafa verið gerðir stígar ásamt viðhaldi á núverandi stígakerfi. 

Á þessu ári verður settur upp nýr frísbívöllur í tengslum við núverandi völl á Hömrum. Á tjaldsvæðinu var gerð bílabraut í stað þeirrar sem var á sundlaugarsvæðinu. Hjólabraut hefur verið lögð frá Hlíðarfjalli og suður í Kjarnaskóg og er hún mjög vinsæl. Endurgerð allra leiksvæða bæjarins hefur staðið yfir undanfarin ár og er þeim nánast lokið. Opnu leiksvæðin eru 38 talsins, þau eru langflest með vottuðum leiktækjum og undirlagi en mikið fjármagn hefur verið lagt í þau undanfarin ár.  

Það skiptir máli að íbúar geti haft bein áhrif á sitt nánasta umhverfi, því hafa hverfisnefndir og hverfisráð fengið fjármagn til hinna ýmsu framkvæmda og hefur í flestum tilfellum gengið vel að nýta það fjármagn. Helstu verkefnin eru byggingar grillhúsa, framkvæmdir við útikennslustofu, kaup og uppsetning leiktækja, húsamerkingar, kaup á bekkjum og borðum, útplantanir, lýsing leiksvæða og fl.

Sem fyrr segir er Akureyrarbær mjög framarlega og jafnvel frumkvöðull meðal annarra sveitarfélaga á Íslandi í umhverfismálum og er Vistorka dæmi um slíka forystu. Félagið Vistorka tók til starfa árið 2015 og er markmið þess að stuðla að framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu. Auk þess kannar félagið mögulega nýtingu á þeim hliðarafurðum sem framleiðslunni tengjast. Með öflugri fræðslu og samvinnu með bæjarbúum og fyrirtækjum má segja að Vistorka hafi komið af stað ákveðinni vakningu í þessu málefni.

Það ætti öllum að vera ljóst að Akureyrarbæ er alvara með að taka umhverfismálin föstum tökum og enn eitt dæmi þess er yfirlýsing sem ber heitið Compact of Mayors sem undirrituð var af Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra árið 2015 en um er að ræða sameiginlega yfirlýsingu borgarstjóra um heim allan um vilja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, birtingu tölulegra upplýsinga um frammistöðu viðkomandi borga í loftslagsmálum og setja markmið um enn betri frammistöðu. 

Hér hefur aðeins verið farið yfir brotabrot af því góða starfi sem hefur átt sér stað í umhverfismálum á Akureyri síðustu ár og áfram munum við halda því að verkefnin eru ærin og mikilvægt að halda vel á spöðunum við að fjárfesta í framtíðinni.

-Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar