Hráakjötsfrumvarpið

Drögin að frumvarpinu sem nú liggja fyrir á samráðsgátt stjórnvalda taka til breytinga á lögum um dýrasjúkdóma, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneiddum eggjum. 

Með því er ríkisvaldið að bregðast við dómum EFTA-dómstólsins frá 2017 og  Hæstaréttar Íslands frá 2018 en niðurstaða þeirra dóma var að íslensk lög og reglur, sem kveða á um að afla skuli leyfis fyrir innflutningi kjöts, eggja og mjólkurafurða og krafa um frystingu kjöts, brjóti í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra hefur farið um landið og kynnt drögin að frumvarpinu fyrir landsmönnum og á hann hrós skilið fyrir það framtak.

Aðgerðaráætlunin

Samhliða frumvarpinu er lögð fram aðgerðaráætlun í 12 liðum sem ætluð er til að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Verði frumvarpið samþykkt verður gripið til þeirra aðgerða samhliða afnámi þess leyfisveitingakerfis sem nú gildir um innflutning á kjöti og eggjum.

Aðgerðaráætlunin er mikilvæg en dugir ekki ein og sér auk þess sem gefinn er afar knappur tími til innleiðingar verði frumvarpið að veruleika.  Það sem skortir í aðgerðaráætluninni er m.a. nauðsyn þess að meta samkeppnisstöðu íslensk landbúnaðar í samanburði við lönd ESB og koma með tillögur um hvernig megi jafna samkeppnisstöðu bænda hér á landi við kollega þeirra erlendis.

Ein leið gæti m.a. verið  sú að að endurskoða tollverndina og yfirfara núverandi tollaskrá því nýr tollasamningur við ESB, frumvarpið sem er til umfjöllunar og breytt fyrirkomulag við útboð á tollkvótum eru allt breytur sem fyrirséð er að munu rýra afkomu íslenskra bænda.

Frumvarpið eins og það er lagt fram í dag tekur ekki nægilega á sérstöðu landsins sem byggir m.a. á hreinleika búfjárstofna okkar, við þurfum að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis.

Lýðheilsa – Bændablaðið 28. febrúar 2019

Lance Price, prófessor við George Washington háskóla í Bandaríkjunum kom inn á, á fundi sem Framsóknarflokkurinn hélt á dögunum er að það ríki mikið andvaraleysi í heiminum vegna þess að æ fleiri gerðir af sýklalyfjum væru að verða óvirk vegna stöðugt öflugri ofurbaktería.

Nú séum við að fara inn í tíma þar sem við getum ekki lengur læknað jafnvel algengustu sýkingar eins og í þvagblöðru með hefðbundnum sýklalyfjum þar sem komnar eru bakteríur sem hafa þol gegn þessum lyfjum

Sagði hann stöðuna hafa gjörbreyst á undanförnum 10 árum, eftir því sem sýkingarnar yrðu erfiðar, yrði stöðugt kostnaðarsamara fyrir heilbrigðiskerfið að meðhöndla sjúklinga og það leiddi til fleiri dauðsfalla.

Sem dæmi  má nefna um þá sérstöðu sem íslenskur landbúnaður hefur hvað varðar heilbrigði og hreinleika er að bara í Noregi er notkun sýklalyfja í landbúnaði á jafn lítil og hérlendis.  Einnig má nefna að að einungis eitt land í heiminum uppfyllir kröfur Íslands varðandi sjúkdómastöðu vegna innflutnings á erfðefni til landsins. Svínabændum er einungis heimilt að flytja inn djúpfryst svínasæði frá Noregi og fá afhent inn á bú eftir 30 daga sóttkví. Kostnaður við þetta ferli er um 15 til 20 faldur í samanburði við kollega okkar erlendis.

Getur verið að við séum hugsanlega að fórna gríðarlegum hagsmunum, eiga það á hættu að lýðheilsu landsmanna hraki og við munum þurfa að greiða skaðann síðar meir með hærri gjöldum í heilbrigðisþjónustu? 

Málið varðar lýðheilsu okk­ar og um þann sjálf­sagða rétt okk­ar að verja sér­stöðu okkar búfjárstofna sem ef frumvarpið verður samþykkt standa ógnir af vegna sýklaónæmra baktería.  Ég tel það afar áhugavert ef samfélög sem byggja á gömlum grunni við framleiðslu á landbúnaðarvöru geti ekki varið sig.

Í athugasemdum frumvarpsins sem lagt var fram 2009 kemur fram að innflutningsbanni sé viðhaldið með það að markmiði að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna og sé þá ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna Íslands. Reynslan hafi sýnt að þeir geti verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum sem litlum skaða valda í öðrum löndum.  Þessi staða er óbreytt í dag.

Þetta er gríðarlega stórt mál og mikilvægt málefni fyrir íbúa Akureyrar og sveitarfélaganna í kring.

Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Akureyri er stór þéttbýlisstaður í miðju matvælaframleiðsluhéraði með langa hefð fyrir úrvinnslu og annarri virðisaukandi starfsemi tengdri landbúnaði. Svo við setjum þetta í tölulegt samhengi þá eru um 300 manns sem starfa við úrvinnslu á landbúnaðarafurðum kjöti, eggjum og mjólk. Í þjónustu tengdri landbúnað þá erum við að tala um fóður, áburð, eldsneyti, flutninga, vélasölu og viðgerðir, og önnur aðföng til landbúnaðar. Þar starfa um 60 -70 manns. Þá eru ótalin öll afleidd störf.

Í gegnum tíðina hefur Akureyri byggt afkomu sína að hluta á þjónustu við þá aðila sem byggja afkomu sína á landbúnaði. Í skýrslu sem AFE vann í samstarfi allra atvinnuþróunarfélaganna og landshlutasamtaka kom fram að heildarvelta landbúnaðar er 73 milljarðar, 16% þeirra tekna verða til á Norðurlandi eystra.

Í atvinnustefnu Akureyrarbæjar má lesa eftirfarandi: með leyfi forseta:

„Fyrirtæki á Akureyri verði í fararbroddi í þróun og framleiðslu matvæla á landsvísu. Bærinn verði þekktur sem miðstöð rannsókna og þróunar í íslenskum matvælaiðnaði og skapi þannig fjölda nýrra starfa bæði á sviði hátækni og framleiðslu í greininni.

Fjölbreytt atvinnutækifæri eru forsenda öflugs atvinnulífs og þar með þess að bærinn okkar sé eftirsóttur búsetukostur fyrir alla sem þar vilja búa.

Íslenskir bændur eru að ég best veit óhræddir við samkeppnina sé hún byggð á sambærilegum og sanngjörnum samkeppnisgrundvelli.  Kröfur um aðbúnað dýra og sýklalyfjanotkun er allt önnur en gengur og gerist í löndum m.a. innan EES.  Staðreyndin er sú að við erum að keppa við framleiðslu þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er allt að 80 föld m.v. það sem er hérlendis og hormónagjöf er hluti af daglegum rekstri. Launakostnaður er mun lægri erlendis en hér heima auk þess sem reglur um aðbúnað og dýravelferð ganga mun lengra en víðast annarsstaðar.

Hin mikli ávinningur landsmanna

Títtrætt er um hinn mikla ávinning landsmanna verði frjáls innflutningur á hráu kjöti leyfður.  Við vitum ekki í dag hvaða afleiðingar slíkt hefði í för með sér.  Samkvæmt greinagerðinni sem fylgir frumvarpinu er ávinningurinn um 900 milljónir, ef við reiknum það niður á hvern og einn landsmann eru það 2.520 kr. á ári.  Sem nægir ekki fyrir heimsendri pizzu. Í greinargerð með frumvarpinu eru gert ráð fyrir að samdráttur í tekjum framleiðenda landbúnaðarafurða verði 500-600 miljónir en samkvæmt útreikingum Deloitte er það metið sem svo að tekjutap kjötframleiðenda getið numið nær tveim miljörðum

Það er alveg ljóst að þegar kemur að heilnæmi og sýklalyfjanotkun er íslenski búfjárstofninn í algjörri sérstöðu á heimsvísu.  Það er sorglegt ef við fórnum gríðarlegum langtímahagsmunum og sérstöðu fyrir minni skammtímahagsmuni örfárra einstaklinga.

Sérstaða okkar byggir m.a. á hreinleika búfjárstofna okkar, við þurfum að verjast þeirri ógn  sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis.  Auk þess sem það er ófyrirséð hvaða áhrif þetta mun á eina stærstu atvinnugrein þjóðarinnar verði frumvarpið að veruleika. Frumvarpið eins og það er lagt fram í dag tekur ekki nægilega á þessum þáttum.

Bókunin

Bæjarfulltrúar B-lista hvetja íslensk stjórnvöld til að kanna hvort endurskoða megi ákvæði innan EES samningsins með það að markmiði að hægt verði að tryggja áframhaldandi sérstöðu Íslands hvað varðar heilbrigði búfjárstofna og lága tíðni sýkinga af völdum fjölónæmra baktería. Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir.
Áhyggjuefni er hversu skammt á veg undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða er kominn. Aðgerðaráætlunin kemur inn á mikilvæg atriði en dugir ekki ein og sér, auk þess sem gefinn er afar knappur tími til innleiðingar.

Verði frumvarpið að veruleika mun það hafa neikvæð áhrif á starfsumhverfi landbúnaðarins.  Á Akureyri má áætla að á fjórðahundrað störf séu beint afleidd af landbúnaði, þar af 220 í kjötvinnslu.  Landbúnaður er ein meginundirstaða atvinnu á landsbyggðinni.  Óábyrgt væri af stjórnvöldum að samþykkja frumvarp sem hefur slíkar afleiðingar án þess að tryggja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, endurskoða tollasaminga og móta framtíðarsýn fyrir atvinnugreinina.