Úr vörn í sókn í fræðslumálum

Frá upphafi kjörtímabilsins höfum við unnið markvisst að því að setja fræðslumál í forgrunn – og þar með setja börnin okkar og barnafjölskyldur í fyrsta sæti. Ákveðið var að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum sem og þrýsta á ríkið að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði sem nú hefur verið gert. 

Að auki hefur verið lögð áherslu á bætt starfsumhverfi og líðan nemenda og starfsfólks í leik – og grunnskólum bæjarins. Við setjum markið hátt og viljum grípa til aðgerða sem draga fram að skólabærinn Akureyri verði með framúrskarandi menntastofnanir sem aðrir horfi til. 

Stóra breytingin í fjárhagsáætlun tengd fræðslumálum er sú að frá og með haustinu 2021 ætlum við að bjóða 12 mánaða gömlum börnum leikskólavist eða börnum sem eru fædd í ágúst 2020 og eldri.  Þetta var stærsta málið í síðustu kosningum, unnið hefur verið að þessu frá byrjun kjörtímabilsins og nú er þetta mikla hagsmunamál barnafjölskyldna að verða að veruleika.  Með tilkomu Klappa, nýja leikskólans við Höfðahlíð sem áætlað er að taka í gagnið haustið 2021 og Árholts verður þetta möguleiki.

Unnið hefur verið að því að styðja við dagforeldrakerfið, niðurgreiðsla á  8 tímanum er komin í framkvæmd auk þess sem sett var inn viðbótar niðurgreiðsla til þeirra foreldra sem eiga börn sem ná þeim aldri að komast inn í leikskóla en fá því miður ekki pláss. 

Áfram verður unnið að því að kanna möguleikann á fjölgun innritunardaga í leikskóla, það er að innrita 12 mánaða börn oftar yfir árið en ekki einungis að hausti eins og verið hefur og vonandi skapast tækifæri til þess í nánustu framtíð. 

Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir 2,5% hækkun leikskólagjalda um næstu áramót en gert er ráð fyrir að leikskólagjöld þ.e. kostnaðarhlutdeild foreldra standi undir 15,2% af brúttókostnaði leikskólanna. Væri viðmiðið sett við 17% eins og það hefur verið þyrfti að hækka leikskólagjöldin um 14,5% í staða 2,5%.

Barnahópurinn sem innritast sumarið 2021 og er fæddur á tímabilinu júní 2019-ágúst 2020 mun greiða hærra gjald fyrsta ár barnsins í leikskóla eða 10% álag á dvalargjaldið. Dvalartíminn fyrir 8 tíma vistun miðað við almennt gjald fer því úr 30.616 kr. í 33.680 kr.

Yngsti aldurshópurinn í leikskóla reiknast sem tvö barngildi sem leiðir til þess að færri börn eru á hvern kennara eða fjögur börn. Hægt er að segja að rekstrarkostnaður við innritun yngri barna sé hærri en jafnframt er aukin þörf á leikskólavist fyrir þau áþreifanleg.    

Markmiðið hefur verið að fæðissala í mötuneytum grunnskólanna standi undir öllum kostnaði við rekstur mötuneyta, þ.e. hráefni, launum, rafmagni, viðhaldi og afborgun stofnkostnaðar.

Árið 2019 var lítilsháttar halli á rekstri mötuneyta grunnskólanna. Helstu breytingar á rekstarumhverfi mötuneytanna frá árinu 2019 eru að áætlaður launakostnaður hefur hækkað mikið eða um allt að 25%.

Ákveðið hefur verið að fæðisgjald í grunnskólunum fyrir árið 2021 standi aðeins undir hréfni og launakostnaði, en ekki undir öðrum kostnaði. Samkvæmt þessu er því lögð til 7% hækkun í stað 2,5%.

Kæru bæjarfulltrúar – við höfum snúið vörn í sókn í málefnum barnafjölskyldna hér á Akureyri. Frá og með næsta hausti munum við bjóða börnum sem eru fædd í ágúst 2020 og eldri leikskólavist.  Búið er að setja inn styrki til styrktar og ný menntastefna hefur litið dagsins ljós. Þar er lögð áhersla á jöfn tækifæri allra barna með tiltrú og áherslu á farsæld með gæðastarf í forgrunni.  Áfram munum við fylgja eftir aðgerðaáætlun menntastefnunnar m.a. með innleiðingu gæðaviðmiða í leik og grunnskólastarfi, með stuðningi og ráðgjöf til stjórnenda og kennara ásamt því sem endurskoðuð verða sérúrræði í skólum bæjarins.

Stór hluti nýrrar framkvæmdaáætlunar snýr að fræðslumálum, unnið verðir áfram að framkvæmdum í Lundarskóla, nýr leikskóli Klappir verður tekinn í notkun auk þess sem unnið verður að hönnun lóðar Oddeyrarskóla en áætlað er að framkvæmdir við lóðina hefjist árið 2022. Aldrei hafa verið jafn miklar framkvæmdir á mannvirkjum í leik og grunnskólum Akueyrarbæjar og sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikill kraftur í skólastarfi bæjarins þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður.  Fyrir það ber að þakka og er ég full tilhlökkunar á að takast á við áframhaldandi verkefni.