Framsókn í flugi

Grein birt í Morgunblaðinu 5. ágúst 2021

Mikil áhersla hefur verið lögð á að styðja við uppbyggingu innanlandsflugvalla ásamt því að jafna aðstöðumun íbúa að grunnþjónustu landsmanna. Árið 2020 lagði Sigurður Ingi Jóhannsson nýja flugstefnu fyrir Íslands fram til samþykkis á Alþingi. Markmið stefnunnar er m.a. að efla innanlandsflug, sem telst nú hluti af almenningssamgöngukerfinu á Íslandi. Með flugstefnunni á að tryggja öruggt og skilvirkt kerfi um allt land ásamt að tryggja að ferðafólk dreifist jafnt um allt land. Framsókn hefur lengi talað fyrir því að efla fluggáttir inn í landið, enda mun það styðja við ferðaþjónustu um allt land.

Loftbrú

Einn mikilvægasti hluti stefnunnar er Loftbrú, en slíkt verkefni hefur verið Framsóknarmönnum hugleikið í langa tíð. Það fékk pláss í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks og varð að veruleika með undirskrift Sigurðar Inga. Til að tryggja blómlega byggð í öllum landshlutum verður jafnt aðgengi að þjónustu að vera tryggt. Þegar Loftbrúin hóf sig til flugs síðasta haust var stigið stórt skref til þess að jafna aðstöðumun þeirra sem búa fjarri höfuðborginni. Hér er um að ræða mikilvægt skref til þess að bæta aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu ásamt því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjöldum fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu þrisvar á ári. Um er að ræða mikilvæga byggðaaðgerð sem skapar tækifæri fyrir einstaklinga og samfélög. Einnig getum við skapað aukin tækifæri með frekari eflingu á Loftbrú, enda er innanlandsflug hluti af almenningssamgöngum landsins.

Ferðaþjónustan tekur á loft

Ný sókn hófst í byrjun sumars í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi þegar tekin var fyrsta skóflustungan að 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli sem og aðgerðir á flugstöðinni á Egilsstöðum Með eflingu flugstöðvanna opnast fleiri tækifæri fyrir ferðaþjónustu á svæðinu ásamt möguleikum á fjölgun starfa og sköpun tækifæra. Auk þessa er beinlínis um öryggismál að ræða sem huga þarf vel að.  Með stærri og betri flugstöð má taka á móti stærri vélum og byggja undir það sem fyrir er. Með aukinni flugumferð á síðustu árum er mikilvægt að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum geti þjónað sem alþjóðaflugvellir meðal annars til að opna fleiri gáttir inn í landið og taka virkan þátt þegar sóknin hefst og allt fer aftur á flug. Stigin hafa verið stór skref í flugmálum undir stjórn Sigurðar Inga á kjörtímabilinu. Um er að ræða arðbær verkefni sem hafa mikla þýðingu fyrir samfélög um allt land. Við erum komin á flug – höldum stefnunni.

Áfram veginn.