Heilsuefling eldri borgara – aftur af stað!

Birtist í Morgunblaðinu 26.mars 2021

Eldri borgarar hafa margir hverjir þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun vegna Covid-19 faraldursins. Það hefur meðal annars haft þau áhrif að margir hafa ekki haft tök á að stunda reglubundna hreyfingu líkt og áður. Með hækkandi sól og fleiri bólusettum landsmönnum horfum við sem betur fer fram á bjartari tíma. Því er afar mikilvægt að virkja þennan aldurshóp aftur til hreyfingar, því fyrr, því betra.

Öll erum við meðvituð um jákvæð áhrif skipulagðrar hreyfingar. Þau sem ná eftirlaunaaldri í dag eru mun líklegri til að njóta fleiri ára með góða hreyfigetu en sambærilegur einstaklingur gerði einungis fyrir nokkrum áratugum. Þessi staða býður upp á nýjar áskoranir en einnig upp á tækifæri sem við þurfum að nýta okkur til fulls. Allar nýjar rannsóknir sýna okkur að hreyfing og styrktarþjálfun ásamt hollu matarræði getur bætt lífsgæði og seinkað öldrun allt upp í 5 ár eða meira.

Eldri borgarar eru breiður hópur fólks með ólíkar þarfir og markmiðið er að allir geti búið sem lengst heima við öryggi og verið sjálfstæðir í lífi og starfi. Síðustu ár hafa orðið nýjar áherslur sem taka mið af áskorunum eldra fólks og auðvelda þeim að halda áfram virkri þátttöku í samfélaginu. Þar má t.d. benda á Heilsueflandi samfélög sem er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl. Þar sem markvisst er unnið að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan íbúa.

Félags- og barnamálaráðherra gerði nýverið samninga við Landssamband eldri borgara og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands um að aðstoða áhugasöm sveitarfélög um land allt við að innleiða með markvissum hætti heilsueflingu til framtíðar sem felur í sér skipulagða þjálfun og aukið heilsulæsi aldraðra m.t.t. hreyfingar, næringar og annarra þátta sem skipta sköpum fyrir heilsu þeirra og líðan. Lögð verði áhersla á námskeið, fræðslu og annan faglegan stuðning til þjálfara eftir því sem við á, og annarra sem koma að heilsueflingu aldraðra á hverjum stað. Áhersla verði lögð á samstarf hlutaðeigandi aðila á hverjum stað s.s. félög eldri borgara, íþróttafélög og líkamsræktarstöðvar. Markmiðið er að auka lífsgæði aldraðra með betri líkamlegri og andlegri heilsu. Með þessu er verið að skapa enn frekari umgjörð fyrir þennan aldurshóp og fjölga tækifærum til hreyfingar og koma hreyfingu betur inn í daglegt líf þeirra.

Aðstaða til heilsueflingar

Aðstaða í sveitarfélögum til íþróttaiðkunar hefur tekið miklum framförum og hafa mörg sveitarfélög unnið að því að bæta aðstöðu til fjölbreyttrar hreyfingar, innandyra sem utan. Inniaðstaða í íþróttahúsum, útiæfingatæki, upphitaðir göngustígar og bekkir til að hvílast á með reglulegu millibili á vinsælum gönguleiðum eru nokkur dæmi sem vert er að nefna. Félagsstarf er líka í boði með fjölbreyttri afþreyingu og virkni á vegum sveitarfélaga, félaga eldri borgara, íþróttafélaga og annarra félagasamtaka. Íþróttafélög um land allt bjóða mörg hver upp á skipulagðar æfingar fyrir þennan aldurshóp en íþróttahreyfingin á Íslandi hefur allt sem þarf til að vel takist, menntaða þjálfara, faglegt starf og góða aðstöðu. Þörfin fyrir inniaðstöðu fer sífellt vaxandi með auknum fjölda þeirra sem vilja vera á hreyfingu að vetri til og því er mikilvægt að efla enn frekar möguleika á fjölbreyttri inniaðstöðu fyrir alla aldurshópa.

Hver er ávinningurinn?

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er heilsa líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku. Heilsuefling er því mikilvægur liður í markvissu lýðheilsustarfi. Regluleg hreyfing hefur fjölþætt gildi fyrir heilsu og líðan á öllum æviskeiðum. Rannsóknir staðfesta mikilvægi hreyfingar fyrir aldraðra m.a. betri heilaheilsu, minni likur á föllum og almennt aukna getu til að sinna daglegum athöfnum. Hreyfing stuðlar auk þess að betri andlegri og líkamlegri heilsu og ýtir undir félagsleg samskipti og virkni almennt. Þörfin fyrir styrkingu vöðvamassa vex með árunum sem mótvægi við því tapi sem á sér stað frá miðjum aldri það er því til mikils að vinna. Margir átta sig ekki á hvað vöðvastyrkur er afgerandi þáttur í að komast leiðar sinnar og vera virk. Því má aldrei hætta í að styðja við þá styrktarþjálfun sem eflir vöðvamassann.

Mikilvægi heilsueflingar til aukinna lífsgæða verður seint ofmetin en umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á því að fólk lifi lengur, við betri heilsu og betri lífsgæði en ella.

Sú heilsuefling sem nú er stefnt að með þeim styrkjum og fræðslu sem verður í boði er ætlað að snúa vörn í sókn á öllum sviðum lýðheilsu. Því er mikilvægt að allir hjálpist að við það að virkja gönguhópa, hreyfihópa á sem fjölbreyttastan hátt og hvetja hvert annað í góðum lífstíl.

Höfundar:

Ingibjörg Ólöf Isaksen bæjarfulltrúi og formaður starfshóps um lífskjör og aðbúnað eldri borgara

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB