Ísland er í einstakri stöðu

– Ingibjörg Isaksen skrifar um loftslagsráðstefnuna í Glasgow – COP26 – greinin birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hófst þann 31. október sl. og stendur nú yfir í Glasgow, í Skotlandi. Hún er eðlilegt, og um leið nauðsynlegt, framhald af loftslagsráðstefnunni COP21, sem var haldin í París árið 2015. Þar undirrituðu þau 197 ríki, sem eru aðilar að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hið svokallaða Parísarsamkomulag. Í því koma fram fögur fyrirheit um kolefnishlutleysi og sett voru markmið um að takmarka hnattræna hlýnun við innan við 1,5°C fyrir 2050 og 2°C á þessari öld.

Ísland og Evrópusambandið stefna á 55% samdrátt í losun fyrir 2030

Með Parísarsamkomulaginu skuldbundu ríki sig einnig til að setja sér sín eigin landsmarkmið um samdrátt í losun. Gert er ráð fyrir að ríki uppfæri markmið sín á fimm ára fresti. Þannig var upphaflegt markmið Evrópusambandsins, sem Ísland tekur þátt í ásamt Noregi, 40% samdráttur í losun fyrir árið 2030, en núna stefnir sambandið á 55% samdrátt í losun.

Mörg ríki hafa þegar kynnt langtímasýn um hvernig þau ætla að ná kolefnishlutleysi og hafa uppfært losunarmarkmið sín. Helsta áhyggjuefnið er samt það að Kína og Indland eru ekki í þeim hópi en þau eru ásamt Bandaríkjunum stærstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (IPCC) sem kom út í ágúst var bent á að jafnvel þó að ríki skeri hratt niður losun á gróðurhúsalofttegundum gæti hnattræn hlýnun náð 1,5°C strax á næsta áratug en þar kom einnig afdráttarlaust fram að lausnir séu mögulegar og að hver gráða umframhlýnunar skipti verulegu máli um alvarleika afleiðinga loftslagsbreytinganna.

Kolin og farartæki knúin áfram af jarðefnaeldsneyti heyri sögunni til

Í umræðunni fyrir loftslagsráðstefnuna var ekki gert ráð fyrir stórum ákvörðunum á COP26 en þó eru bundnar vonir við að ríkin sem taka þátt í ráðstefnunni skrifi undir yfirlýsingu þar sem ítrekuð verði stefna um mikinn samdrátt í losun fyrir 2030 og mikilvægi markmiða um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 verði staðfest.

Mikilvægast fyrir okkur Íslendinga er að mikið er rætt um að mikilvægasta niðurstaða COP26 verði að ríkin einsetji sér að henda kolum og að farartæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði skipt út.

Vandamálið er þó það að allar ákvarðanir sem eru teknar á ráðstefnunni þurfa að vera samhljóða og það getur verið vatn á myllu þeirra sem eiga mikið undir framleiðslu á jarðefnaeldsneyti eins og Sádi-Arabía, Ástralía og Rússland. Enda hefur komið nýlega fram að þessi lönd hafa í gegnum tíðina þrýst á Sameinuðu þjóðirnar að draga úr áherslunni á að ríki heims hætti notkun jarðefnaeldsneytis.

Hreinir orkugjafar eru að taka yfir

Þó að margir séu ekki bjartsýnir á niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í Glasgow hljótum við Íslendingar að fagna því að hreinir orkugjafar eru að taka yfir. Enda fylgja breytingunum margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í farabroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Ísland í einstakri stöðu

Ísland er í einstakri stöðu til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að loftslagsvánni. Hér á landi er orkan okkar stærsta auðlind og við höfum sýnt að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna á sama tíma og við umgöngumst landið okkar af virðing og varfærni.

Því er eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára að halda áfram að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó með rafknúnum bifreiðum og orkuskiptum í sjávarútveginum og flugsamgöngum. Til þess þurfum við að hraða uppbyggingu innviða um allt land og ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Þar eru orkuauðlindirnar okkar, vatns-, jarðvarma- og vindorka augljóslega þeir möguleikar sem vænlegastir eru.

Við Íslendingar eigum því að hefjast strax handa að ákveða til framtíðar hvernig við viljum nýta orkuauðlindirnar okkar og hraða uppbyggingu innviða. Ef við Íslendingar getum sýnt fram á árangur þegar kemur að orkuskiptum munum við leggja enn meira af mörkum til loftslagsmála á alþjóðavísu en við gerum í dag. 

Höfundur er 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.