Virðulegi forseti
Ég stend hér stolt, auðmjúk og þakklát fyrir það tækifæri að fá að flytja jómfrúarræðu á hinu háa Alþingi Íslendinga. Það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri að vinna að góðum málum í þágu samfélagsins alls.
Í málum jafn ítarlegum og tæknilega flóknum eins og fjárlögum er auðvelt að gleyma sér í einstaka tölum og liðum. Það sem skiptir mestu máli er heildarmyndin, að geta séð skóginn fyrir trjánum. Hvernig lítur heildin út? Fjárlagafrumvarpið gefur okkur von til þess að vera bjartsýn eftir öldugang undanfarinna mánaða og efnivið til frekari vinnu.
Við yfirferð fjárlagafrumvarpsins kemur skýrt í ljós að efnahagshorfur hafa batnað til muna frá framlagningu síðasta fjárlagafrumvarps. Afkoma og skuldahorfur ríkissjóð hafa batnað og tekjur eru áætlaðar meiri en í fjármálaáætlun.
Það er ekki sjálfgefið að vera á þessum stað sem við erum eftir heimsfaraldur, sem sett hefur flestar þjóðir í erfiða stöðu, það er í raun leitun að annarri þjóð sem stendur jafn traustum fótum og við hér á Íslandi.
Stjórn ríkisfjármála byggir á traustum grunni. Þau eru ábyrg og metnaðarfull. Opinber fjármál síðustu mánaða hafa mótast af efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins, en eðlilegt er að halli hafi verið á ríkisjóði vegna samdráttar og aukinna útgjalda. Hallinn hefði hinsvegar verið umtalsvert meiri hefði ekki verið ráðist í viðspyrnuaðgerðir, því líkt og við sjáum nú að þær skiluðu góðum árangri.
Vinnumarkaðsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og hraður viðsnúningur hagkerfisins hafa tryggt að atvinnuleysi hefur dregist hraðar saman en við þorðum að vona. Við megum þó ekki slaka á því enn er hætt á langtíma atvinnuleysi.
Því er mikilvægt að huga að umgjörð vinnumarkaðarins. Niðurstaða kjarasamninga mun ráða miklu um þróun efnahagsmála næstu árin. Tryggja þarf að atvinnuleysi og verðbólga verði ekki að vandamáli, en verðbólguspár gera ráð fyrir aukinni bjartsýni.
Sterk staða ríkissjóðs á síðasta kjörtímabili og hagstæðar aðstæður í efnahagslífinu voru nýttar í styrkingu velferðarkerfa, viðamikla innviðauppbyggingu ásamt því að leggja sérstaka áherslu á rannsóknir og efnahagsmál. En áfram skal halda.
Hæstvirt ríkistjórn ætlar að stuðla að heilbrigðu samfélagi, í stjórnarsáttmálanum kemur fram aukin áhersla á heilbrigðismál. Það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Það er mikilvægt að við tryggjum öflugu blönduðu heilbrigðiskerfi viðeigandi aðbúnað. Þannig tryggjum við að okkar verðmæti og hæfi mannauður, sem býr við þekkingu á sviði heilbrigðismála, þjóni samfélaginu sem best. Okkur ber að nýta öll þau úrræði sem við búum að í heilbrigðiskerfinu, og með samvinnu og skynsemi ríkis og einkaaðila náum við árangri.
Á næsta ári verður m.a. aukið framlag til Landspítalans, opna á 6 hágæslurými, 30 ný endurhæfingarrými og koma á fót sérstakri Farsóttardeild í Fossvogi til að bregðast við faraldrinum.
Auka á fjárframlög til Sjúkratrygginga og gert er ráð fyrir aukningu framlaga til heilsugæslunnar, þá hækka fjárframlög til geðheilbrigðismála tímabundið.
Mikil umræða hefur verið um stöðu hjúkrunarheimila á landinu, því er ánægjulegt að auka eigi við fjármagn í byggingu hjúkrunarheimila og fara í endurbætur á á eldri rýmum. Þjóðin er að eldast og mikilvægt er að við höfum framtíðarsýn í þjónustu til eldra fólks. Við þurfum að búa svo um hnútana að fólk geti búið heima sem lengst við reisn, öryggi og þjónustu sem það getur treyst á. Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna. Þeirri áskorun þurfum við að mæta með krafti og með hagsýni og skynsemi að leiðarljósi.
Stefna ríkistjórnarinnar á komandi kjörtímabili er að bæta hag eldri borgara, fyrsta skrefið er að hækka frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega í 200 þús. kr. á mánuði um næstu áramót. Þeirri aðgerð hefur lengi hefur verið kallað eftir, og það er ánægjulegt að sjá það verða að veruleika.
Til að jafna tækifæri til atvinnu í landinu verður áfram haldið með þrífösun rafmagns, með áherslu á dreifingu og afhendingaröryggi raforku í dreifbýli, þá verður ýtt undir verkefnið störf án staðsetningar m.a. með því að skapa aðstæður og þróa áfram hugmyndafræðina.
Hugmyndafræði sjálfbærni og réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verður leiðarstef ríkisstjórnarinnar í yfirstandandi umbreytingum vegna loftslagsvárinnar og tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Aukin tækifæri eru í orkuskiptum með grænni orku, við eigum að nýta þau tækifæri og tryggja með því stefnu stjórnvalda um að Ísland verði lágkolefnishagkerfi.
Áfram verður lögð áhersla á uppbyggingu greiðra, öruggra og hagkvæmra samgangna. Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna unnin í samgöngumálum, og munum við halda þeirri vinnu áfram. Það myndi taka allan minn ræðutíma að lista upp mikilvægar framkvæmdir sem farið verður í, og það er jákvætt merki. Við getum tekið framkvæmdir á Fjarðarheiðagöngum sem dæmi um mikilvægar aðgerðir sem brýnt er að klára sem fyrst.
Markmið eru að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi, til þess að það geti orðið að veruleika þarf að bæta að starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Stuðla á að sjálfbærni þróun byggða um land allt m.a. með jafnrétti í sveitastjórnum, með því að efla þær og skapa aukna vitund um mikilvægi fjölbreyttra sjónarmiða innan þeirra.
Endurskoða á tekjustofna sveitarfélaga með það að markmiði að auka sjálfbærni sveitarfélaga, hækka framlög í jöfnunarsjóð og auka stuðning úr sjóðnum til sameiningu sveitarfélaga.
Virðulegi. forseti við erum að hefja nýtt kjörtímabil. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að tryggja gott líf og góð búsetuskilyrði fyrir allt fólkið í landinu, óháð stöðu og efnahag. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2022 er upptakturinn að því sem koma skal.