Ný fram­sókn fyrir ferða­þjónustu á Norður­landi

Grein birt á visi.is 15. júní 2021

Skóflustungan sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók fyrir nýrri flugstöð á Akureyri í dag markar tímamót í uppbyggingu ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Framsókn hefur lengi talað fyrir því að fjölga fluggáttum inn í landið og styðja þannig enn frekar við ferðaþjónustu um allt land. Ný flugstöð og nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli er mikilvægt skref í þá átt.

Undir forystu formanns Framsóknar, Sigurðar Inga, hafa verið stigin stór skref í flugmálum á kjörtímabilinu sem brátt líður að lokum. Hann lagði fram fyrstu flugstefnu Íslands sem samþykkt var á þingi. Þá er Loftbrúin komin á gott flug en í september verður ár liðið frá því Sigurður Ingi hleypti af stað því merkilega verkefni sem veitir þeim íbúum sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu 40% afslátt af flugfargjöldum til borgarinnar. Sú aðgerð er mikilvæg fyrir íbúa landsbyggðarinnar en kemur líka til með að styðja vel við almenningssamgöngur í lofti og styrkja ferðaþjónustuna í kringum landið.

Eitt af markmiðunum sem hafa verið ofarlega á baugi í ferðaþjónustu hefur verið að dreifa ferðamönnum um landið. Bæði er það til þess að jafna álag á innviði á landinu en þó ekki síður til þess að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu hringinn í kringum landið. Við sem búum á Norðurausturlandi búum að því að eiga á svæðinu náttúruperlur sem eru þekktar um allan heim. Sá kraftur sem settur hefur verið í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli í ráðherratíð Sigurðar Inga, með uppsetningu ILS-búnaðar og annarra tækninýjunga sem bylta aðstæðum flugvéla til lendinga og nú síðast nýrri flugstöð og flughlaði, býr til sterkan grundvöll fyrir aukna tíðni millilandaflugs til Akureyrar. Það styrkir ekki aðeins Akureyri sjálfa heldur allt Norður- og Austurland.

Það má því með sanni segja að það sé hafin ný framsókn fyrir ferðaþjónustu á Norðausturlandi, framsókn sem kemur til með að skapa atvinnu og skapa tækifæri til að efla byggð á svæðinu. Öflugir flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum eru hluti af öflugri sókn, framsókn fyrir landið allt.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningum 2021.