Störf þingsins 8. desember 2021

Virðulegi forseti,

Hjól atvinnulífsins eru farin að hreyfast og hagkerfið er að komast í gang. Eftirspurn hefur aukist hratt og framleiðendur eru að bregðast við. Samhliða því hefur orkunotkun þjóðarinnar vaxið og met í raforkunotkun eru slegin í hverri viku. Þá er vert að nefna að innrennsli í lónum hefur verið minna en vanalega auk þess sem flutningskerfið tryggir ekki nægjanlega nýtingu orkunnar í sinni núverandi mynd.

Í kjölfarið er komin upp sú staða sem kemur líklega mörgum að óvörum, það er raforkuskortur. Þetta var ekki endilega ófyrirséð, en þær fréttirnar komu þó mörgum á óvart.

Það er jákvætt að hjólin séu farin að hreyfast, en undanfari alvarlegs orkuskorts er brýnt vandamál sem þarf að leysa.

Það er ánægjulegt að sjá áherslur í stjórnarsáttmálanum um að tryggja sjálfbært Ísland með grænni orkuframleiðslu og grænum fjárfestingum. Ég tel að við séum þar öll að róa í sömu átt. Hér skiptir stóra myndin öllu máli. Að mæta orkuþörf heimilanna sem og atvinnulífsins. Þar notum við skynsemi og hagkvæmni þegar hvert skref er tekið, og vöndum okkur í umgengni við náttúruna.

Fiskimjölsverksmiðjur hafa til dæmis fengið þær fregnir að Landsvirkjun geti ekki veitt þeim hreina raforku nú í upphafi loðnuvertíðar. Þær neyðast til að skipta yfir í óákjósanlega orkugjafa, eins og olíu. Slík staða er eitthvað við eigum ekki að þurfa að horfast í augu við sem íslensk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu auðlindir.

Tryggja þarf næga orku bæði fyrir heimilin og atvinnulífið. Olía er ekki ákjósanlegur kostur. Það er skref aftur á bak og það vill enginn.