Ingibjörgu Isaksen skrifar – birt í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022
„Þingflokkur Framsóknar hefur sýnt fram á að hann er hópur fólks er hefur fólk í fyrirrúmi.“
Þingflokkur Framsóknar mun eins og undanfarin ár leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjördæmaviku. Við verðum með opna fundi Framsóknar í kjördæmaviku um land allt. Það er okkur mikilvægt að ná að nálgast og hlusta á raddir kjósenda, ekki aðeins á fjögurra ára fresti, heldur með reglubundnum hætti. Þannig leggjum við okkar af mörkum til að hlusta á fólkið okkar og skapa okkur öllum samfélag sem við erum stolt af, tryggja fólki góð lífskjör og treysta búsetu í landinu. Það er og verður meginverkefni okkar í þingflokki Framsóknar nú sem endranær.
Í kosningabaráttunni síðasta haust fundum við vel að fólk vill sjá alþingismenn sinna brýnum hagsmunum samfélagsins. Kjósendur vildu heyra að við ynnum að lausnum, umbótum og jafnvel róttækum kerfisbreytingum. Þingflokkur Framsóknar hefur sýnt fram á að hann er hópur fólks er hefur fólk í fyrirrúmi, við fjárfestum í fólki og munum halda því áfram. Við fórum m.a. í róttækar kerfisbreytingar á málefnum barna. Slíkar breytingar og fleiri til hafa og munu skipta fólk máli, um land allt.
Í grunnstefinu Framsóknar segir að við aðhyllumst frjálslynda hugmyndafræði og að farsælast sé að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Það er aldrei mikilvægara en nú að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu. Við tryggjum öflugri og sterkari þingflokk Framsóknar með því að hlusta á þarfir og væntingar fólks á brýnum hagsmunamálum.
Við erum nefnilega rétt að byrja!
Okkur alþingismönnum er kjördæmavika sérstaklega mikilvæg. Okkur gefst tími og ráðrúm til að sinna hagsmunum kjördæmanna, það þarf sterka fulltrúa með skýra sýn til að styðja og styrkja það val fólks að halda byggð í landinu. Þingflokkur Framsóknar vill áfram vera forystuafl í brýnum hagsmunum landsbyggðar. Við viljum tryggja áfram að samgöngur, menntun, menning og síðast en ekki síst fjölbreytt tækifæri á atvinnumarkaði séu fyrir hendi.
Ég vil nefna sérstaklega gríðarlega mikilvægt tækifæri er við uppgötvuðum í heimsfaraldrinum; að fólk gat unnið heiman frá sér, og þetta eigum við að nýta og skapa jákvæðan hvata til að framkvæma í frekari mæli. Nýta okkur þekkinguna og tæknina og skapa um leið sterkari byggðir. Framsókn er stjórnmálaaflið til að standa við orð sín og gerðir.
Skynsemin liggur á miðjunni.
Höfundur er formaður þingflokks Framsóknar. ingibjorg.isaksen@althingi.is