Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2023.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Stjórnvalda bíður verðugt verkefni við að sjá til þess að orkuþörf samfélagsins sé uppfyllt á sama tíma og við ætlum okkur að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Stefna stjórnvalda er að hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis og nýta þess í stað græna orku. Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvá. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Stækkun smávirkjana
Af þessu tilefni hefur undirrituð lagt fram skýrslubeiðni þar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er falið að greina hvaða smávirkjanir á Íslandi á þegar röskuðum svæðum þoli stækkun. Undirrituð telur þetta vera skynsamlega leið til þess að greina hvar sé mögulegt með einföldum hætti að ná í orku án þess að fjölga virkjunum. Það liggur fyrir að auka þarf framboð á innlendri, endurnýjanlegri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orkugjafa líkt og olíu. Staðreyndin er sú að um þessar mundir er orkuvinnslukerfi landsins fullnýtt og skortur á orku er farinn að valda vanda. Samkvæmt raforkuspá Landsnets munu orkuskiptin kalla á aukna eftirspurn eftir raforku í takt við að þau munu raungerast ásamt því að raforkunotkun heimila og þjónustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við aukinn fólksfjölda. Þá er einnig gert ráð fyrir að þörf atvinnulífsins fyrir aukna raforku muni halda áfram að þróast í svipuðum takt og verið hefur. Samkvæmt spánni er því fyrirsjáanlegt að aflskortur verði viðvarandi og því þörf á að bregðast hratt við og mæta vaxandi þörf fyrir raforku.
Skynsamleg nýting
Smávirkjanir eru mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfi raforku um landið en allt að fimmtungur allrar raforku sem RARIK dreifir til viðskiptavina kemur frá smávirkjunum um landið. Smávirkjanir stuðla ekki bara að auknu orkuöryggi landsins heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Samkvæmt greiningarvinnu Orkustofnunar á smávirkjunarkostum eru fjölmargir virkjunarkostir til staðar með samanlagða aflgetu yfir 2.500 MW. Einhverjar af þessum smávirkjunum búa þó yfir tækifærum til að auka framleiðslugetu sína enn frekar og því mikilvægt að skoða þann möguleika með þeim fyrirvara að það hafi ekki umframáhrif á umhverfið.
Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í orkumálum þjóðarinnar telur undirrituð mikilvægt að endurskoða lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 og leggur því til að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í kjölfarið á greiningarvinnu um mögulegar stækkanir smávirkjana, leggi fram frumvarp með það að markmiði að nýta betur þá orku sem hægt er að afla með virkjunum á þegar röskuðum svæðum og þola stækkun umfram 10 MW. Þannig má tryggja skynsamlega nýtingu á sama tíma og vernd er tryggð á öðrum svæðum. Sú sem hér skrifar telur þó jafnframt afar mikilvægt að smávirkjanir sem færu yfir 10 MW lytu lögum um umhverfismat framkvæmda nr. 111/2021 og öðrum lögum sem gilda um slíkar framkvæmdir. Staðreyndin er sú að langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa því að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Með því að fjárfesta í grænni orku og tileinka okkur nýja tækni getum við hjálpað til við að tryggja orkuframtíð okkar og tryggja að við leggjum okkar af mörkum til að vernda jörðina fyrir komandi kynslóðir.
Inigbjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.