Metaðsókn var að Sundlaug Akureyrar á síðasta ári. Straumhvörf urðu þegar rennibrautirnar vinsælu voru teknar í notkun í júlí en frá þeim tíma og til ársloka fjölgaði heimsóknum í laugina um 40.000 gesti miðað við sama tíma árið áður. Heildarfjöldi gesta á árinu var um 389 þúsund, töluvert umfram eldra aðsóknarmet.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur aukningin haldið áfram á þessu ári og ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir því að heimsóknir í laugina verði yfir 400 þúsund nú í ár.
Framkvæmdirnar við sundlaugina eru sannarlega að skila sér, ekki eingöngu í ánægju bæjarbúa og ferðafólks, heldur einnig með auknum tekjum sundlaugarinnar en á síðasta ári voru tekjur laugarinnar 21,5 milljónir umfram áætlun sem er sannarlega ánægjulegur ávinningur.
Heitur pottur og vaðlaug
Í dag voru vaðlaug og heitur pottur tekin í notkun við sundlaugina. Potturinn er með nuddstútum og er góð viðbót við potta laugarinnar. Í vaðlauginni er bæði hægt að busla og leika sér, auk þess sem þaðan er gott að fylgjast með börnunum bæði í rennibrautunum og lendingarlauginni.
Framkvæmdirnar við laugina hafa verið umfangmiklar. Nýtt og mikið notað kalt kar hefur leyst fiskikarið af hólmi. Nýtt yfirborðsefni var sett á barnavaðlaugina og nýjum leiktækjum komið þar fyrir auk þess sem steypt var ný lendingarlaug við rennibrautirnar. Ráðist var í löngu tímabært viðhald á sundlaugarsvæðinu, skipt var um yfirborðsefni á bökkum laugarinnar auk annarra viðhaldaverkefna.
Gott aðgengi
Mikil áhersla var lögð á bætt aðgengi á sundlaugarsvæðinu. Nýr fjölnotaklefi var tekinn í notkun en þá aðstöðu hefur skort. Sérstaklega var hugað að góðu aðgengi fyrir fatlaða í nýja pottinum og vaðlauginni þannig að mun fleiri geta nú nýtt sér aðstöðuna og notið þess sem laugin hefur upp á að bjóða.
Senn sér fyrir endann á þessum viðamiklu framkvæmdum við laugina en gert er ráð fyrir að framkvæmdum við sundlaugalóðina ljúki í júní en þar verður útbúin sólbaðsaðstaða og leiksvæði fyrir börn.
Eins og heimsóknafjöldinn í sundlaugina gefur til kynna er hún afar vinsæl meðal bæjarbúa og hefur að auki heilmikið aðdráttarafl fyrir gesti okkar, jafnt sumar sem vetur. Laugin, pottarnir, rennibrautirnar og svæðið sem heild gegnir mikilvægu hlutverki sem vatnaparadís fyrir alla fjölskylduna og er einn vinsælasti áningarstaður innlendra sem erlendra gesta okkar milli þess sem þeir njóta alls þess sem Akureyri hefur upp á að bjóða í afþreyingu, listum og skemmtun.
-Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi.