Börnin okkar eru þau dýrmætustu verðmæti sem við eigum og viljum við þeim allt hið besta. Það á við um menntun, uppeldi og vöxt þeirra og viðgang. Eitt af því sem við erum meðvituð um er að maturinn sem börnin okkar borða sé hollur og næringarríkur. Fræðsluráði Akureyrarbæjar barst erindi fyrir skömmu síðan þar sem dregnar voru þær ályktanir að ekki væri farið eftir tilmælum Landlæknis þegar kemur að viðmiðum varðandi mat í grunn og leikskólum Akureyrar. Í kjölfar þessa er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Teknir voru upp sjö vikna matseðlar fyrir alla leik og grunnskóla bæjarins, matseðlarnir voru yfirfarnir af næringafræðingi sem reiknaði þá út, út frá næringarþörf barnanna og manneldismarkmiðum. Síðan hafa matseðlarnir verið yfirfarnir og uppskriftum bætt við. Eitt af meginmarkmiðum með sameiginlegum matseðlum er að tryggja að öllum skólabörnum standi til boða hollur og næringaríkur hádegisverður.Það var mikil bragabót þegar þessir matseðlar voru teknir upp en Akureyrarbær gerir þá kröfu að fylgt sé eftir markmiðum Embætti landlæknis. Vissulega má alltaf leitast við að gera enn betur og bókaði fræðsluráð á síðasta fundi sínum að komið yrði á reglubundnum úttektum á matseðlum og gæðum matarins í mötuneytum skólanna.
Heilnæmur íslenskur matur
Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að aðstæður okkar til matvælaframleiðslu eru að mörgu leiti einstakar, lítil notkun sýklalyfja, hreint vatn og hreint loft er eitthvað sem aðrar þjóðir öfunda okkur af og reglur um aðbúnað dýra eru með þeim ströngustu sem þekkjast. Grænmetið, kjötið og mjólkin eru hollustuvara sem við getum verið stolt af. Landbúnaður er öflugur í nærsveitum okkar og mikið af þeirri framleiðslu er síðan fullunnin hér í bænum. Leiðin úr haga í maga er því oft stutt. Akureyrarbær fer í útboð á matvælum og meðal annars var gerður samningur við Kjarnafæði eftir slíkt útboð. Kjarnfæði hefur unnið að því að draga mikið úr óæskilegum aukefnum í sinni framleiðslu. Vöruþróun síðustu ára hefur snúið mikið að því að fækka óþolsvöldum ásamt aukefnum og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi þegar kemur að vottunum, bæði innlendum og erlendum. Minna salt og sykur er öllum til heilla hvort sem það er framleiðslufyrirtækjum eða neytendum.
Frasinn „unnar matvörur“ hefur á síðustu árum verið notaður af sumum sem samheiti við óhollustu sem er mikil einföldun. Vinnsla á matvörum er oft nauðsynlegur og eðlilegur hluti af því að gera matvörur heppilegri til neyslu og auka matvælaöryggi. Dæmi um slíkt er t.d. gerilsneyðing á mjólk og framleiðsla á undanrennu og léttmjólk fyrir þá sem kjósa minni fitu. Vinnsla á matvælum er einnig oft til þess fallin að auka geymsluþol sem stuðlar að minni matarsóun. Unnar kjötvörur eru gríðarlega fjölbreyttur flokkur matvæla hafa farið í gegnum mismunandi framleiðsluferla og er stór hluti af daglegri neyslu fólks. Akureyrarbær setur strangar kröfur um heilnæmar unnar kjötvörur í útboð sitt og hefur Kjarnafæði unnið þétt með þeim stóru samstarfsaðilum að heilnæmari matseðli hverju sinni.
Íslenskar hefðir
Við Íslendingar höfum alist upp við alls kyns hefðir, m.a. gagnvart mat. Líkt og hjá öðrum þjóðum hafa matarhefðir okkar þróast með hliðsjón af þeim aðstæðum sem þjóðin bjó við í gegnum aldirnar og eru stór hlut af okkar menningararfleifð. Ég tel afar mikilvægt að við týnum ekki ríkum hefðum í okkar samfélagi eins og sprengidegi, hátíðarmat og þorramat svo dæmi séu tekin. En einmitt þessa dagana eru börnin okkar mörg hver að fá að bragða á þorramat og sum hver í fyrsta sinn. Skólar landsins eiga heiður skilinn fyrir að halda þessum hefðum á lofti og kynna börnin fyrir þessum matvælum sem tengjast þeim.
Vinnsla matvæla er hluti af matvælaframleiðslu. Eins og umræðan hefur verið síðustu ár ekki bara í síðustu viku þá, er aukin áhersla á heilnæmi vara og er það vel, því það er mikilvægt að ný þekking um betri næringu og hollustu skili sér til neytenda allra tegunda matvæla.