Ingibjörg Ólöf Isaksen skrifar – birtist í Morgunblaðinu 22. desember 2018
„Landsbyggðarfólk á skýlausan rétt á sömu þjónustu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og gott aðgengi að þeim fáu sérfræðilæknum sem starfa úti á landi er okkur sérlega dýrmætt.“
Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni á undir högg að sækja og er mismunandi eftir búsetu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur boðað að endurskoða skuli fyrirkomulag sérfræðilæknaþjónustu með aukinni áherslu á göngudeildarþjónustu á Landspítalanum, frekar en að sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar taki á móti sjúklingum á stofum sínum. Hætti læknir störfum sökum aldurs eða búferlaflutninga í einkageiranum hafa nýir sérfræðilæknar ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands til þess að taka við. Þetta hefur komið í veg fyrir alla nýliðun og haft þær afleiðingar að fólk af landsbyggðinni neyðist til að sækja í síauknum mæli sérfræðiþjónustu til höfuðborgarinnar.
Við sem búum úti á landi erum meðvituð um að ekki er raunhæft að veita alla sérfræðiþjónustu á hinum ýmsu svæðum landsins en vissulega er hægt að gera betur.
Nú hefur legið fyrir að rammasamningar hins opinbera við sérfræðilækna renni út um áramótin. Rammasamningur felur í sér að ríkið niðurgreiðir og tekur þátt í kostnaði við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan opinbera heilbrigðiskerfisins að stórum hluta.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt til að rammasamningur Sjúkratrygginga við sérfræðilækna verði framlengdur um eitt ár og boðar samráð við Sjúkratryggingar og sérfræðilækna um kerfisbreytingar. Sérfræðilæknar hafa aftur á móti ekki verið tilbúnir að framlengja samninginn að óbreyttu.
Mikilvægt er að ráðast í greiningu á þeirri þjónustu sem er í boði á landsbyggðinni og áætla þörf, sjá hvaða þjónustu skortir en þá mun án efa koma í ljós sá mikli munur sem er á aðgengi á heilbrigðisþjónustu eftir búsetu. Markmið laga um sjúkratryggingar (nr.112, 2008) er meðal annars að tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Jafnframt skal leitast við að tryggja þjónustu við sjúkratryggða hvar á landinu sem þeir eru búsettir og að veitendur þjónustu gæti þess að sjúkratryggðir njóti jafnræðis. Að mínu mati er uppbygging göngudeildarþjónustu á Landspítala á kostnað sérfræðilæknisþjónustu úti á landi ekki til þessa fallin.
Mörg okkar sem búum úti á landi tökum því nánast sem sjálfsögðum hlut að fara til læknis í Reykjavík, með tilheyrandi vinnutapi, kostnaði og fyrirhöfn. Í dag taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði fyrir fólk utan af landsbyggðinni en þó aðeins ef ekki er starfandi sérfræðingur í viðkomandi sérgrein í heimabyggð. Það hlýtur í þessu samhengi að liggja í augum uppi að það sé hagstæðara fyrir þjóðarbúið að senda einn lækni út á land til að vinna í nokkra daga í mánuði í stað þess að tugir manna þurfi að taka sig upp og sækja þjónustuna suður. Landsbyggðarfólk á skýlausan rétt á sömu þjónustu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og gott aðgengi að þeim fáu sérfræðilæknum sem starfa úti á landi er okkur sérlega dýrmætt. Því er verulegt áhyggjuefni að sérfræðiþjónusta er nú enn og aftur sett í uppnám.
Vil ég nýta tækifærið hér og hvetja heilbrigðisráðherra til að flýta vinnu við endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi þessa málafloks og útbúa heildstætt kerfi svo heilbrigðisþjónusta verði aðgengileg fólki óháð búsetu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar og bæjarfulltrúi á Akureyri.